Fótbolti

Sá fyrsti í 64 ár en var svo sendur snemma í sturtu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vitorino Hilton er fyrirliði Montpellier liðsins en hann er nýbúinn að halda upp á 43 ára afmælið sitt.
Vitorino Hilton er fyrirliði Montpellier liðsins en hann er nýbúinn að halda upp á 43 ára afmælið sitt. Getty/Tim Clayton

Brasilíumaðurinn Hilton kom til Evrópu til að spila fótbolta árið 2002 og hann er enn að. Hilton náði sögulegum áfanga í gær en kvöldið endaði þó ekki vel hjá honum.

Hilton varð í gær fyrsti leikmaðurinn síðan 1956 til að spila í frönsku deildinni eftir 43 ára afmælisdaginn sinn. Hilton hélt upp á 43 ára afmælið sitt á sunnudaginn og spilaði síðan með Montpellier í gærkvöldi.

Það hafði ekki gerst síðan í júní 1956 að svo gamall leikmaður spilaði í deildinni en þá lék hinn 44 ára gamli Roger Courtois með liði Troyes. Hilton er fæddur 13. september 1977 og spilar sem miðvörður.

Vitorino Hilton da Silva gengur vanalega bara undir nafninu Hilton en hann fyrirliði Montpellier liðsins og hefur verið hjá félaginu síðan 2011. Hilton kom fryst til Evrópu árið 2002 þegar hann samdi vð svissneska félagið Servette. Hann kom fyrst til Frakklands á láni en gekk svo til liðs við Lens árið 2004.

Hilton varð elsti markaskorari frönsku deildarinnar þegar hann skoraði sitt síðasta mark árið 2017, þá 39 ára gamall. Hann hefur síðan misst það met til Benjamin Nivet en mun eignast það aftur um leið og hann skorar í deildinni.

Hilton hefur skorað 20 mörk í 485 leikjum í frönsku deildinni en hefur ekki verið á skotskónum síðan í leik á móti Mónakó 7. febrúar 2017.

Þessi sögulegi leikur fyrir Hilton í gær endaði þó ekki vel.

Hilton fékk rauða spjaldið fyrir sitt annað gula spjald en hann fékk um leið dæmt á sig víti. Memphis Depay skoraði fyrir Lyon úr vítinu. Tvö mörk frá Teji Savanier tryggðu Montpellier aftur á móti 2-1 sigur.

Lyon-liðið, sem komst alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar á dögunum, hefði komist í toppsæti deildarinnar með sigri.

Lyon missti líka mann af velli á undan Montpellier því Houssem Aouar fékk beint rautt spjald fyrir brot á Arnaud Souquet.

Það hefur verið mikið um rauð spjöld í upphafi tímabilsins í Frakklandi en alls hafa farið á loft 20 rauð spjöld í 28 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×