5. mars árið 1997 lenti flutningaskipið Víkartindur í sjávarháska í brjáluðu veðri eftir að vélarbilun kom upp í skipinu snemma morguns. Ragnar Axelsson rifjar upp að hann var heima að undirbúa afmælið sitt þegar hann fékk símtalið. Eins og svo oft áður, henti hann öllu frá sér, settist upp í flugvélina og flaug á staðinn til þess að taka myndir.
„Hann hangir þar í akkerisfestunum,“ segir RAX um það sem blasti við honum á vettvangi skammt austan Þjórsárósa þegar hann kom á staðinn. Fyrstu klukkustundirnar hafnaði skipstjóri Víkartinds ítrekað aðstoð björgunarsveitanna sem voru komnar þar að.
„Hann ætlaði að reyna að laga vélina þannig að þeir gætu siglt út en þetta er bara sandbotn þannig að þeir koma alltaf nær og nær landi,“ útskýrir RAX.
Skipið endaði á að stranda í fjörunni og hluti af brakinu er þar enn. Ungur maður fór fyrir borð og lést þennan dag en RAX segir að þetta hefði alls ekki þurft að fara svona illa.
„Gæslan bjargar 19 manns á síðustu stundu, hundrað metra frá landi.“
Í þessum sjötta þætti af RAX Augnablik segir ljósmyndarinn söguna á bak við myndirnar af ströndun Víkartindar. Örþáttinn má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan en hann er tæpar sex mínútur að lengd.