Dregið var í 8-liða úrslit enska deildabikarsins í fótbolta og þar er að minnsta kosti einn stórleikur á dagskrá.
Átta liða úrslit deildabikarsins
Arsenal - Manchester City
Brentford - Newcastle
Everton - Manchester United
Stoke City - Tottenham
Manchester City, sem unnið hefur keppnina þrjú ár í röð, dróst gegn Arsenal á útivelli. Rúnar Alex Rúnarsson hefur verið á varamannabekk Arsenal í síðustu leikjum liðsins, eftir að hafa komið til félagsins frá Dijon.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur leikið alla þrjá leiki Everton í keppninni til þessa frá upphafi til enda. Everton dróst gegn Manchester United.
B-deildarlið Brentford er í fyrsta sinn í 8-liða úrslitum og fékk heimaleik gegn Newcastle. Tottenham sækir svo Stoke City heim.
Allir leikirnir fara fram í jólavikunni sem hefst 21. desember.