„Eitthvað það erfiðasta sem maður lendir í sem fréttaljósmyndari er þegar það verða slys, svona hörmungar eins og snjóflóðin á Flateyri og Súðavík. Það er eiginlega ekkert erfiðara til, það situr í manni alla ævi,“ segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson.
Í nýjasta þættinum af RAX Augnablik fer hann yfir það hvernig það var að mæta á vettvang og mynda eftir náttúruhamfarirnar fyrir 25 árum. Hann var sendur á staðinn bæði Súðavík og Flateyri eftir flóðin árið 1995 til þess að skrásetja atburðina. Í þættinum eru sýndar myndirnar sem RAX tók eftir flóðin og hann segir frá sinni upplifun.
„Það farast í þessum flóðum 36 manns og þegar svona gerist þá náttúrulega þarf að skrásetja þetta í söguna, Íslandssöguna,“ útskýrir RAX. Eftir snjóflóðið á Flateyri þann 26. október árið 1995, tók hann meðal ljósmynd af litlu barni í kirkjunni, sem varð mjög táknræn fyrir þennan dag.
„Maður getur ekki staðið fyrir framan fólk, grátandi fólk sem er að syrgja og bíður í von og ótta um ástvini sína,“ segir RAX um það af hverju hann sat aftast í kirkjunni á meðan guðsþjónustunni stóð. Enn var verið að leita að litlu barni í flóðinu.
„Þá gerist það að lítið barn fer að hágráta og það truflar athöfnina þannig að móðir þess heldur á því og gengur aftur í kirkjuna. Þar er björgunarsveitarmaður sem heldur um höfuðið á sér sorgmæddur. Litla barnið hágrætur og svo allt í einu stoppar það og lítur upp. Það var augnablikið.“
RAX segir að Magnea oddviti á Flateyri hafi skýrt þessa mynd Von og það nafn hefur fest við hana síðan. Hægt er að horfa á þáttinn Snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri í spilaranum hér fyrir neðan. RAX Augnablik eru stuttir örþættir og birtast á Vísi og Stöð 2 Maraþon alla sunnudaga.
Í þáttunum RAX AUGNABLIK segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson sögurnar á bak við margar af sínum þekktustu myndum. Ragnar hefur starfað á vettvangi í meira en fjörutíu ár og eru sögurnar hans ævintýralegar. Nýr þáttur kemur út á hverjum sunnudegi hér á Vísi og á Stöð 2 Maraþon.
Hægt er að sjá alla þættina HÉR á Vísi.