Luis Suárez, framherji Atlético Madrid, fékk gult spjald fyrir að kíkja á sjónvarpsskjá á hliðarlínunni í jafntefli spænska liðsins við Lokomotiv Moskvu, 1-1, í Meistaradeild Evrópu í gær.
Félagi Suárez í úrúgvæska landsliðinu, José Giménez, kom Atlético yfir á 18. mínútu. Skömmu síðar fékk Lokomotiv vítaspyrnu sem Anton Miranchuk skoraði úr.
Benoit Bastien, franskur dómari leiksins, dæmdi vítið á Héctor Herrera fyrir að handleika boltann innan vítateigs. Hann kíkti á VAR-skjáinn á hliðarlínunni áður en hann kvað upp dóm sinn.
Bastien var ekki sá eini sem horfði á VAR-skjáinn því Suárez stalst einnig til þess að kíkja á hann yfir öxl dómarans. Bastien hafði ekki mikinn húmor fyrir þessu uppátæki Suárez og gaf honum gult spjald.
Suárez lék allan leikinn fyrir Atlético sem er í 2. sæti A-riðils Meistaradeildarinnar með fjögur stig. Næsti leikur liðsins er gegn Lokomotiv á heimavelli 25. nóvember.
Suárez, sem gekk í raðir Atlético frá Barcelona í sumar, hefur skorað fjögur mörk í sjö leikjum á tímabilinu.