Henry Birgir Gunnarsson fór með Seinni bylgjuna sína til Vestmannaeyja á dögunum og hitti þar á meðal Sunnu Jónsdóttur hjá kvennaliði ÍBV.
Sunna Jónsdóttir hefur verið undanfarin ár í lykilhlutverki hjá kvennaliði ÍBV og hún fór á kostum í leikjum Eyjakvenna áður en Olís deild kvenna var stöðvuð vegna kórónuveirufaraldursins.
Viðtal Henrys Birgis við Sunnu birtist síðan í síðasta þætti af Seinni bylgjunni.
Henry Birgir byrjaði á því að spyrja að því hvernig Sunnu líkar lífið í Vestmannaeyjum.
„Alveg stórkostlega. Við erum búin að kaupa okkur hús hérna og Eyjafólkið losnar ekkert við okkur,“ sagði Sunna Jónsdóttir í léttum tón en maðurinn hennar er Björn Viðar Björnsson, markvörður karlaliðsins.

„Það er svo margt gott við að vera í Eyjum. Það er ótrúlega mikill tími sem gefst með fjölskyldunni sérstaklega ef maður er með barn. Stutt í alla þjónustu. Maður getur líka alltaf komið hingað og æft,“ sagði Sunna.
Eyjaliðið lítur vel út og þykir líklegt til að fara að berjast um titla í vetur.
„Sem íþróttamaður þá vill maður vera á toppnum og reyna að vinna titla. Þegar ég kom fyrst þá vorum við líka með mjög gott lið en svo þurftum við að taka aðeins til í þessu hjá okkur í fyrra og byrja á núlli. Það skilaði sér fullt. Við fengum svo tvo sterka pósta í viðbót fyrir veturinn,“ sagði Sunna og er þar að tala um landsliðskonurnar Birnu Berg Haraldsdóttur og Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur.
„Við erum bara mjög spenntar fyrir tímabilinu,“ sagði Sunna sem hefur verið að spila sjálf mjög vel í upphafi tímabilsins.

„Þetta er ógeðslega gaman og lengi lifir í gömlum glæðum skal ég segja. Ég kann mjög vel við þetta og maður spilar náttúrulega vel ef manni líður vel. Þetta er nett klikkaði hérna og það hentar mér bara ágætlega ,“ sagði Sunna.
Birna Berg Haraldsdóttir sagði það vera geggjað að spila með Sunnu og það átti þátt í því að hún kom til í Eyja í haust.
„Það er geggjað að spila með henni. Við spiluðum saman í Fram og svo bjuggum við á sama stað í Svíþjóð. Við vorum í sitthvoru liðinu þar. Birna var efins fyrst og ég ákvað að senda á Klaus manninn hennar og fá hann hingað,“ sagði Sunna en það má sjá allt viðtalið við hana hér fyrir neðan.