Leik Íslands og Norður-Makedóníu í forkeppni HM í handbolta sem átti að fara fram í desember hefur verið frestað þangað til í mars.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá HSÍ.
„Rétt í þessu tilkynnti skrifstofa EHF um frestun á öllum riðlum í forkeppni HM kvenna en stelpurnar okkar áttu að leika í Makedóníu í byrjun desember,“ segir í tilkynningunni.
Sagt er að helstu ástæðurnar séu kórónufaraldurinn og hversu erfiðar flugsamgöngur eru þessa stundina.
„Undirbúningur er erfiður þar sem reglur um æfingar og keppni eru mismunandi á milli landa og auk þess er mikil áhætta er í því fólgin að fá allt að 100 manns víðsvegar úr Evrópu á sama staðinn og viðhalda þar sóttvörnum. Þá er alltaf hætta á frestun vegna smita sem greinast á leikstað,“ segir einnig í tilkynningunni.
Ísland er í riðli með N-Makedóníu, Grikklandi og Litáen. Áætlað er að leikirnir fari fram 17.-19. mars 2021.