Viðar Örn Kjartansson varð í gær fyrsti Íslendingurinn til að skora í landsleik gegn Dönum á Parken í 53 ár, eða síðan Hermann Gunnarsson skoraði í 14-2 tapinu fræga 1967.
Viðar kom inn á sem varamaður í leik Danmerkur og Íslands í Þjóðadeildinni í gær. Hann jafnaði metin í 1-1 á 85. mínútu. Mark Selfyssingsins var nálægt því að tryggja Íslendingum fyrsta stigið á Parken síðan 1959, þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli, en Danir fengu aðra vítaspyrnu í uppbótartíma. Christian Eriksen skoraði af miklu öryggi úr vítinu og tryggði danska liðinu stigin þrjú.
Mark Viðars í gær var fyrsta mark Íslendings í landsleik gegn Dönum á Parken síðan Hemmi Gunn minnkaði muninn í 9-2 á 62. mínútu í 14-2 leiknum 23. ágúst 1967. Sex mínútum áður hafði Helgi Númason minnkað muninn í 6-1. Þetta var eitt marka Hemma Gunn fyrir landsliðið en hann lék alls 20 landsleiki.
Íslendingum mistókst að skora í næstu fjórum leikjum sínum á Parken og töpuðu þeim, 0-13 samanlagt.
Síðasti íslenski landsliðsmaðurinn sem skoraði í landsleik á danskri grundu var Arnór Ingvi Traustason í vináttulandsleik Danmerkur og Íslands í MCH Arena, heimavelli Midtjylland í Herning, 24. mars 2016. Hann minnkaði muninn í 2-1 á lokamínútunni.
Mark Viðars í gær var hans fjórða fyrir landsliðið í 28 leikjum. Hann skoraði í vináttulandsleikjum gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Katar 2016 og 2017 og svo gegn Andorra í undankeppni EM í fyrra.