Fótbolti

Elísabet tilnefnd sem besti þjálfari sænsku deildarinnar og Glódís besti varnarmaðurinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir var valinn þjálfari ársins í sænsku úrvalsdeildinni fyrir þremur árum og gæti fengið verðlaunin aftur í ár.
Elísabet Gunnarsdóttir var valinn þjálfari ársins í sænsku úrvalsdeildinni fyrir þremur árum og gæti fengið verðlaunin aftur í ár. kristianstad

Elísabet Gunnarsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir eru báðar tilnefndar til verðlauna á uppskeruhátíð sænsku úrvalsdeildarinnar sem verður haldin á sunnudaginn.

Elísabet er tilnefnd sem þjálfari ársins. Undir hennar stjórn endaði Kristianstad í 3. sæti sænsku deildarinnar og tryggði sér þar með þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

„Náði sögulegum árangri á sínu tólfta tímabili hjá félaginu og kom því í Evrópukeppni. Meiðslin og barneignir settu strik í reikninginn en Beta náði samt óvæntum árangri,“ segir í umsögn dómnefndar um Elísabetu. Auk hennar eru Maria Nilsson, þjálfari Vaxjö, og Mats Gren og Jörgen Ericsson, þjálfarar Svíþjóðarmeistara Göteborg, tilnefndir sem þjálfarar ársins.

Glódís er tilnefnd sem besti varnarmaður sænsku deildarinnar. Hún lék hverja einustu mínútu í öllum 22 deildarleikjum silfurliðs Rosengård á tímabilinu. Í umsögn dómnefndar segir að tímabilið í ár hafi verið það besta á ferli Glódísar. Auk hennar eru Josefine Rybrink (Kristianstad) og Natalia Kuikka (Göteborg) tilnefndar sem varnarmaður ársins.

Jennifer Falk (Göteborg), Olivia Schough (Djurgården) og Therese Åsland (Kristianstad) eru tilnefndar sem verðmætasti leikmaður tímabilsins (MVP).

Einnig verða veitt verðlaun fyrir besta markvörðinn, besta miðjumanninn, besta sóknarmanninn, besta nýliðann og besta markið.

Elísabet var valin þjálfari ársins í sænsku deildinni 2017 og lenti í 2. sæti í kjörinu 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×