Meghan Markle, hertogaynja af Sussex, segir frá því í grein sem hún ritar í New York Times að hún hafi misst fóstur í júlí síðastliðnum.
Í greininni segist hún hafa upplifað nánast óbærilega sorg en hún og Harry Bretaprins, eiginmaður hennar, eiga einn son, Archie, sem fæddist í maí 2019.
Í grein sinni lýsir Meghan því hvernig einn morgun í júlí hafi byrjað eins og hver annar dagur á morgunverði, vítamínum og öðrum morgunverkum.
Eftir að hún skipti á Archie fann hún allt í einu mikinn krampa. Hún datt í gólfið með Archie í örmum sínum og segist hafa sungið fyrir hann vögguvísu til þess að róa þau bæði.
„Þar sem ég hélt á frumburði mínum vissi ég að ég væri að missa annað barnið mitt,“ segir Meghan í grein sinni.
Klukkustundum síðar sat hún á rúmi á spítala með Harry. Hún lýsir því hvernig hún hafi horft á hjarta hans brotna. Hún spurði hvort það væri í lagi með hann.
„Er í lagi með okkur? Þetta ár hefur reynst mörgum okkar svo ótrúlega erfitt. Missir og sársauki hefur fylgt okkur öllum árið 2020, á erfiðum og þungum stundum,“ skrifar Meghan og vísar í kórónuveirufaraldurinn og öll þau mannslíf sem hann hefur kostað.
Hún segist deila reynslu sinni af fósturmissi til að hvetja fólk, nú í aðdraganda þakkargjörðarhátíðarinnar í Bandaríkjunum, til að spyrja aðra hvort það sé allt í lagi.
„Við erum að aðlagast nýjum normi þar sem andlit eru hulin grímum en það neyðir okkur til þess að horfa í augu hvors annars sem eru stundum full af hlýju en stundum full af tárum.
Í fyrsta skipti í langan tíma sjáum við virkilega hvort annað sem manneskjur.
Verður í lagi með okkur? Það mun verða í lagi með okkur,“ skrifar Meghan í lok greinar sinnar.
Fyrr á þessu ári sögðu Harry og Meghan sig frá skyldum sínum sem meðlimir bresku konungsfjölskyldunnar og fluttu frá Bretlandi til Kaliforníu til þess að vera fjarri kastljósi fjölmiðla.