Handbolti

Braut sóttvarnarreglur á EM við litla hrifningu þjálfara danska lands­liðsins

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ambros Martin tók við Rússunum síðasta sumar.
Ambros Martin tók við Rússunum síðasta sumar. Sergei Bobylev/Getty

Það virðast ekki allir geta farið eftir hörðum sóttvarnarreglum á EM í handbolta.

EM kvenna í handbolta fer fram í Danmörku þessar vikurnar og þar gilda ansi harðar reglur. Það eru þó ekki allir sem fara eftir öllum reglunum sem settar hafa verið og það vekur kurr í öðrum liðum.

Ambros Martín, þjálfari rússneska landsliðsins, braut reglurnar um helgina er hann fór úr „rauða svæðinu“ yfir í „bláa svæðið“ þar sem hann ræddi við framkvæmdastjóra rússneska sambandsins.

EHF, evrópska handboltasambandið, hefur nú gefið Ambros aðvörun og tekur það skýrt fram í sinni yfirlýsingu. „EHF vill taka það fram að maður fær bara eina aðvörun. Verði reglurnar brotnar aftur þá verður viðkomandi vikið af mótinu,“ sagði EHF.

Rússland hefur þar af leiðandi fengið aðvörun en einnig hefur Spánn, Serbía, Króatía og Tékkland fengið aðvörun fyrir að virða ekki reglurnar sem settar höfðu verið. Sjónvarpsstöðin TV 2 í Danmörku náði myndum af Martín er hann braut reglurnar.

Danski landsliðsþjálfarinn Jesper Jensen var ekki sáttur þegar hann var spurður út í brot Ambros á reglunum.

„Við erum lokuð inni og höfum ekki hitt fleiri en leikmenn og þjálfarar. Bara þessar 20 til 25 manneskjur sem búa á okkar hæð. Svo þetta er virkilega pirrandi að það séu ekki allir sem geti haldið sig innan reglanna,“ sagði hann.

Hann bætti því við að hann vonaðist eftir því að Ambros myndi fá harða aðvörun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×