Algert hrun í gjaldeyristekjum af ferðamönnum á stærstan þátt í mikilli veikingu krónunnar undanfarna níu mánuði. Seðlabankastjóri hefur sagt eðlilegt að krónan gæfi eftir við þessi skilyrði en bankinn hefur einnig gripið til margs konar aðgerða til að vinna á móti þessum áhrifum með mikilli lækkun vaxta, auknu lánasvigrúmi viðskiptabankanna og afskiptum af gjaldeyrismarkaði.

Hér sést hvernig verð á evrum og bandaríkjadölum tók að hækka í mars. Í byrjun maí hafði evran hækkað frá 135,8 krónum um áramótin í 159,3 krónur og dollarinn úr um 121 krónu í rétt um 145 krónur. Síðan styrktist gengi krónunar á ný með opnari landamærum og slakari sóttvarnaaðgerðum í júní en tók að veikjast aftur þegar leið á sumarið.
Verð evrunnar náði hámarki hinn 27. október þegar hún kostaði 165 krónur og dollarinn fór um svipað leyti í rúmar 140 krónur. En frá miðjum nóvember hefur krónan sótt í sig veðrið.

Á þessari mynd má sjá hvernig bæði evran og dollarinn hafa verið að lækka í verði undanfarna átta daga í desember. Þannig kostaði evran í dag 12,3 krónum minna en hún kostaði fyrir sex vikum.
Jón Bjarki Bentson aðalhagfræðingur Íslandsbanka sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar ekkert eitt skýra styrkingu krónunnar að undanförnu. Aukin bjartsýni vegna jákvæðra frétta af bóluefnum gegn kórónuveirunni skipti örugglega miklu sem og aukin krónukaup evrueigenda sem teldu krónuna hafa náð botninum.