Danska liðið GOG sótti fjögur stig til Ungverjalands en liðið mætti heimamönnum Tatabánya í tveimur leikjum. Sömdu liðin um að spila báða leikina í Ungverjalandi vegna kórónufaraldursins.
Eftir að hafa unnið þriggja marka sigur í gær, 35-32, þá vann liðið tveggja marka sigur í kvöld. Lokatölur leiksins 30-28. Viktor Gísli átti mjög góðan leik í marki GOG en hann varði 14 skot í leiknum.
GOG er sem stendur jafnt Rhein-Neckar Löwen á toppi D-riðils Evrópudeildarinnar með sex stig. Þýska liðið á þó tvo leiki til góða á Viktor Gísla og félaga. Fjögur efstu lið riðilsins komast áfram í 16-liða úrslit keppninnar.
Í dönsku úrvalsdeildinni vann Skjern góðan sex marka sigur á Fredericia, lokatölur 36-30. Elvar Örn Jónsson skoraði fimm mörk í liði Skjern í kvöld.
Skjern er sem stendur í fimmta sæti með nítján stig að loknum sextán leikjum.