Handbolti

Ekberg skaut Kiel í úr­slitin eftir fram­lengingu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sá sænski reyndist hetjan í kvöld.
Sá sænski reyndist hetjan í kvöld. Marijan Murat/Getty

Kiel er komið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar eftir framlengdan undanúrslitaleik gegn Telekom Veszprém í Köln í kvöld. Lokatölur urðu 36-35, þýska liðinu í vil, eftir að staðan var 29-29 eftir venjulegan leiktíma.

Úrslitahelgi Meistaradeildarinnar fer venjulega fram um mánaðamótin maí júní en var frestað um nokkra mánuði vegna kórónuveirufaraldursins og fer nú fram milli jóla og nýárs.

Jafnræði var með liðunum fyrsta stundarfjórðunginn en þá stigu þeir þýsku á bensíngjöfina og náðu mest sjö marka forystu í fyrri hálfleik. Þeir voru 18-14 yfir í hálfleik.

Veszprém minnkaði hægt og rólega muninn og þeir voru búnir að jafna eftir stundarfjórðung í síðari hálfleik. Þeir breyttu stöðunni úr 24-21 í 24-28 en dramatíkinni var þó ekki lokið.

Kiel skoraði fjögur mörk í röð og jafnaði metin í 28-28. Lokamínúturnar fjörugar en liðin skoruðu sitt hvort markið og því þurfti að framlengja.

Allt var áfram jafnt eftir fyrri hálfleik framlengingarinnar, 34-34, en er innan við mínúta var til leiksloka skoraði sænski landsliðsmaðurinn Niclas Ekberg og kom hann Kiel í 36-35. Það urðu lokatölurnar og mætir Aron Pálmarsson því Kiel í úrslitaleiknum.

Hendrik Pekeler skoraði átta mörk og var markahæstur hjá Kiel. Vuku Borozan og Gasper Marguc gerðu sjö hvor fyrir Veszprém.

Aron lék áður með Kiel og Veszprém og fór með báðum liðum í úrslit Meistaradeildarinnar. Hann varð Evrópumeistari með Kiel 2010 og 2012. Úrslitaleikurinn fer fram annað kvöld klukkan 20.30 en leikurinn um þriðja sætið þar á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×