Lífið

Idris Elba með kórónuveiruna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Idris Elba er ekki aðeins leikari heldur einnig plötusnúður í hjáverkum. Hann sést hér á þeyta skífum á tónlistarhátíð í fyrra en þessa dagana er hann í einangrun vegna kórónuveirunnar.
Idris Elba er ekki aðeins leikari heldur einnig plötusnúður í hjáverkum. Hann sést hér á þeyta skífum á tónlistarhátíð í fyrra en þessa dagana er hann í einangrun vegna kórónuveirunnar. Vísir/Getty

Breski leikarinn Idris Elba tilkynnti í gær að hann hefði greinst með kórónuveiruna sem veldur sjúkdómnum COVID-19.

Hann greindi frá tíðindum á Twitter þar sem hann kvaðst hafa fengið greininguna þá um morguninn.

Elba sagði að honum liði ágætlega, hann hefði engin einkenni og að hann hefði verið í einangrun síðan hann komst að því að hann hefði mögulega verið útsettur fyrir veirunni.

„Haldið ykkur heima og verið raunsæ. Ég held ykkur upplýstum um hvernig mér líður. Ekki panikka,“ sagði Elba í færslu sinni á Twitter.

Með færslunni setti hann myndband þar sem hann sagði frá því að hann hefði farið í sýnatöku fyrir veirunni eftir að hann komst að því að hann hefði átt í samskiptum við manneskju sem hafði greinst með veiruna.

Elba sagðist strax hafa farið í einangrun og sýnatöku. Hann hvatti fylgjendur sína tilþess að huga að því að vera ekki í miklu návígi við fólk og að þvo sér reglulega um hendurnar. Þá hvatti hann fólk einnig til þess að vera varkárt til að draga úr útbreiðslu veirunnar.

„Þessi veira hefur haft áhrif á svo marga, þá sem hafa misst ástvini, jafnvel á þá sem hafa ekki fengið veiruna en hafa misst lifibrauð sitt vegna hennar. Þetta er raunverulegt,“ sagði Elba en færslu hans og myndband má sjá í heild hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×