Burtséð frá því hvort að framhald verður á keppnistímabilinu í handbolta hér á landi í vor þá mun landsliðsfyrirliðinn Karen Knútsdóttir ekki taka frekari þátt í því með liði Fram.
Karen tilkynnti það á Instagram í kvöld að þau Þorgrímur Smári Ólafsson, sem einnig er leikmaður Fram, ættu von á barni. Þar með væri ljóst að hún spilaði ekki meira í ár.
Kvennalið Fram var einum sigri frá deildarmeistaratitlinum, þó liðið ætti þrjá leiki eftir, þegar ótímabundið hlé var gert á keppni hér á landi í síðustu viku. Fram var sömuleiðis sigurstranglegt fyrir úrslitakeppnina sem nú er óvíst að verði af.
Karen skoraði 73 mörk í 17 deildarleikjum í vetur. Síðustu leikir hennar voru um bikarhelgina í Laugardalshöll í byrjun þessa mánaðar, þegar Fram tryggði sér bikarmeistaratitilinn.