Handbolti

Jón Gunnlaugur næsti þjálfari Víkings: „Heiður að taka við uppeldisfélaginu mínu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eftir að Andri Berg og Jón Gunnlaugur skrifuðu undir samning við Víking.
Eftir að Andri Berg og Jón Gunnlaugur skrifuðu undir samning við Víking. mynd/víkingur

Jón Gunnlaugur Viggósson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Víkings í handbolta. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið.

Jón Gunnlaugur tekur við Víkingi af Gunnari Gunnarssyni sem hefur þjálfað liðið undanfarin fimm ár. Andri Berg Haraldsson verður aðstoðarþjálfari Víkings og Guðjón Örn Ingólfsson styrktarþjálfari.

Í vetur hefur Jón Gunnlaugur verið þjálfari 3. flokks karla og yfirþjálfari yngri flokka hjá Víkingi.

Hann er uppalinn hjá félaginu og er af miklum Víkingsættum. Pabbi Jóns Gunnlaugs, Viggó Sigurðsson, lék með Víkingi líkt og afi hans, Sigurður Jónsson.

„Öflug stjórn bæði hjá meistaraflokki og Barna- og unglingaráði ásamt öflugum kjarna af leikmönnum sem eru að koma upp og sem fyrir eru hjá liðinu er góð uppskrift. Ég þori að fullyrða að Handknattleiksdeildin hafi sjaldan verið á jafn góðum stað og hún er núna og því heiður að taka við starfinu hjá uppeldisfélaginu mínu og byggja ofan á það góða starf sem Gunni hefur stýrt undanfarin ár,“ segir Jón Gunnlaugur í fréttatilkynningu frá Víkingi.

Víkingar eru í 7. sæti Grill 66 deildar karla þegar þremur umferðum er ólokið. Ekki liggur fyrir hvenær, eða hvort, Íslandsmótið í handbolta klárast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×