Sandra Erlingsdóttir er á leið til Danmerkur til þess að spila með Álaborg. Þetta var staðfest í morgun en hún segir að þetta hafi komið upp fyrir um tveimur vikum.
Það stefndi allt í að Sandra myndi spila með uppeldisfélaginu, ÍBV, í vetur eftir að hafa leikið með Val undanfarin ár en það breyttist snarlega.
„Þetta kom upp fyrir tveimur vikum. Ég var með riftunarákvæði í samningnum til 1. maí hjá ÍBV svo maður þurfi að ákveða sig frekar fljótt,“ sagði Sandra við Svövu Kristínu í Sportpakkanum í kvöld.
„Ég var orðinn sjúklega spennt að spila með ÍBV svo það er leiðinlegt að þetta gerist svona en ég er 22 ára svo ég get alltaf komið heim aftur.“
Álaborg leikur í B-deildinni á næstu leiktíð eftir að hafa fallið um deild eftir að hafa verið í neðsta sæti dönsku deildarinnar er allt var blásið af vegna kórónuveirunnar.
„Það er að koma nýr þjálfari sem mér líst mjög vel á og nokkrir nýjir leikmenn. Mér heyrist að þær séu hungraðar að komast upp aftur og þær hafa verið svekktar að falla á þessum forsendum.“
Sandra hefur áður leikið í bæði Austurríki og Þýskalandi en það var þegar faðir hennar, Erlingur Richardsson, var að þjálfa í þeim löndum.
„Ég var kjúlli sem fékk að vera með þegar pabbi var að þjálfa í Þýskalandi svo þetta er gaman að taka þetta skref á sínum eigin forsendum,“ sagði Sandra.