Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri Laugardalsvallar, segir Laugardalsvöll í góðu standi en engir viðburðir verða á vellinum næsta mánuðina.
Starfsmenn vallarins gerðu allt hvað þeir gátu til þess að koma vellinum í spilhæft stand en Ísland og Rúmenía áttu að mætast á leiknum í marsmánuði. Ekkert varð af leiknum vegna kórónuveirunnar.
„Við erum nokkuð sáttir. Hann er fjarska fallegur og góður líka en hann á smá í land að vera spilhæfur,“ sagði Kristinn í samtali við Svövu Kristínu í Sportpakka kvöldsins. Engir viðburðir eru á vellinum næstu mánuðina.
„Það er hundfúlt. Við vorum spenntir fyrir júní; bæði æfingum og leikjum. Eins og staðan er núna er þetta óljóst eins og margt í samfélaginu. Við misstum marga viðburði í maí og júní.“
„Það er Rey Cup í júlí og ég veit ekki hvort að það mót fari fram en það er næsti fótboltaviðburður eins og staðan er í dag.“
En er möguleiki á því að einhverjir íslenskir leikir fari fram á vellinum í sumar?
„Það er hægt að skoða allt saman og finna lausn á öllu ef áhugi er fyrir því. Það er möguleiki og veltur á félögunum og hægt að skoða allt.“