Farið er yfir breytingarnar í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu sem birt var í gær.
Síðari áfangi breytinga á tekjuskatti einstaklinga tekur gildi nú um áramótin. Þessi seinni áfangi felur í sér lækkun á grunnþrepi tekjuskatts um 3,60 prósentustig og hækkun á miðþrepi tekjuskatts um 0,75 prósentustig. Nýju skattprósenturnar verða því 17 prósent í grunnþrepi og 23,5 prósent í miðþrepi. Við prósenturnar bætist síðan útsvarsprósenta sveitarfélaga. Breytingar milli ára má sjá hér fyrir neðan.

Skerðingarmörk barnabóta hjá einstæðum foreldrum hækka úr 325 þúsund kr. á mánuði í 351 þúsund kr. á mánuði.
„Það þýðir að fyrir einstætt foreldri sem hefur allar sínar tekjur af launavinnu og greiðir 4% skylduiðgjald í lífeyrissjóð er engin skerðing á barnabótum upp að 365.040 kr. í mánaðarlaun,“ segir í tilkynningu.
Hjá fólki í sambúð hækka neðri skerðingarmörk barnabóta úr 650 þúsund kr. á mánuði í 702 þúsund kr. Efri skerðingarmörk haldast óbreytt við 5,5 m.kr. á ári hjá einstæðum foreldrum og 11,0 m.kr. hjá sambúðarfólki.
Í eftirfarandi töflu eru tekin dæmi af fjölskyldum með misháar tekjur og áhrifum barnabótabreytinga á ráðstöfunartekjur þeirra.

Í ársbyrjun 2021 mun skatthlutfall almenns tryggingagjalds lækka um 0,25 prósentustig, úr 4,9 prósent í 4,65 prósent. Aðgerðin er tímabundin í eitt ár og hluti af aðgerðarpakka stjórnvalda vegna efnahagsáhrifa kórónaveirunnar. Tryggingagjald í heild lækkar úr 6,35 prósent í 6,10 prósent.
Krónutölugjöld hækka um 2,5 prósent um áramótin en eru þó sögð lækka að raungildi í tilkynningu ráðuneytisins. Breytingar á helstu krónutölugjöldum milli áranna 2020 og 2021 eru sýndar í meðfylgjandi töflu.


Breytingarnar eru nánar útlistaðar, auk fleiri skattabreytinga, í tilkynningu fjármálaráðuneytisins sem nálgast má hér.