Handbolti

Guð­mundur um meiðsli Arons: Of­boðs­legt á­fall

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðmundur ræddi um meiðsli Arons á æfingu landsliðsins í morgun.
Guðmundur ræddi um meiðsli Arons á æfingu landsliðsins í morgun.

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands í handbolta, segir meiðsli Arons Pálmarssonar gríðarlega blóðtöku fyrir liðið.

Tilkynnt var í gær að Aron myndi ekki leika með landsliðinu í janúar vegna meiðsla á hné. Hvorki í leikjunum gegn Portúgal í undankeppni EM né á HM í Egyptalandi.

Landsliðið hefur hafið undirbúning fyrir leikina og æfði í Víkinni í morgun. Guðmundur var spurður út í meiðsli Arons.

„Ég hafði ákveðnar áhyggjur af þessu í aðdragandanum. Eftir þessi meiðsl hans var ég í sambandi við hann og vissi að það gæti brugðið til beggja vona,“ sagði Guðmundur.

„Þetta fór svona að hann treysti sér ekki og eftir að hafa verið skoðaður af læknum landsliðsins var þetta niðurstaðan. Þetta er gríðarleg blóðtaka.“

„Þetta er fyrirliði liðsins og er lykilmaður í vörn og sókn. Þetta er ofboðslegt áfall. Hann er mjög mikilvægur. Það verða aðrir að stíga upp og leysa hans hlutverk af hólmi, eins og kostur er. Við þurfum að gera það besta úr stöðunni. Það er ekkert annað að gera,“ sagði Guðmundur.

Ísland leikur tvo leiki gegn Portúgal í undankeppni EM; hér heima og í Portúgal áður en liðið heldur til Egyptalands.

Klippa: Guðmundur um meiðsli Arons



Fleiri fréttir

Sjá meira


×