Fótbolti

„Maður ætti ekki að trúa öllu sem að maður les“

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson sló í gegn í sænsku úrvalsdeildinni á nýliðnu ári.
Ísak Bergmann Jóhannesson sló í gegn í sænsku úrvalsdeildinni á nýliðnu ári.

Hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann Jóhannesson þvertekur fyrir það að ljóst sé að hann muni fara frá sænska knattspyrnufélaginu Norrköping í janúar.

Í hlaðvarpsþættinum Dr. Football var fullyrt á dögunum að Ísak væri á förum frá Norrköping. Ísak hefur áður verið sagður á ratsjánni hjá stórliðum á borð við Real Madrid, Juventus og Manhcester United, eftir frábæra frammistöðu á sinni fyrstu leiktíð í sænsku úrvalsdeildinni. 

Hjörvar Hafliðason þáttastjórnandi Dr. Football kvaðst hins vegar reikna með því að Ísak færi ekki í eitthvert stórlið að þessu sinni, heldur tæki minna skref. Hann hefði hins vegar spilað sinn síðasta leik fyrir Norrköping. Fótbolti.net birti í gær frétt byggða á ummælum Hjörvars.

„Maður ætti ekki að trúa öllu sem að maður les,“ sagði Ísak þegar sænski miðillinn Aftonbladet spurði hann í dag hvort hann væri á förum frá Norrköping í janúar.

„Þetta er ekki rétt. Ég er leikmaður IFK Norrköping og mun gera allt fyrir félagið. Ég ræð því hins vegar ekki hvað er sagt í fjölmiðlum, en ég get einbeitt mér að því að gera mitt besta á æfingum og koma til baka til Norrköping eins góður og mögulegt er,“ sagði Ísak sem fagnaði nýja árinu heima á Íslandi.

Ísak er nú kominn með nýjan þjálfara en Jens Gustafsson, sem gaf Ísaki gott tækifæri til að láta ljós sitt skína, er hættur hjá Norrköping og Rikard Norling tekinn við.

„Ég er svo þakklátur honum [Gustafsson] fyrir allt sem hann gerði fyrir mig. En nú er kominn nýr þjálfari hjá Norrköping og það verður spennandi. Ég hlakka til að hitta hann og sjá hvernig þetta verður,“ sagði Ísak.


Tengdar fréttir

Ísak Bergmann á lista UEFA yfir 50 efnilegustu leikmenn heims

Ísak Bergmann Jóhannesson sló í gegn í sænska boltanum á nýafstaðinni leiktíð og lék í kjölfarið sinn fyrsta leik fyrir A-landslið Íslands. Hann er eini Íslendingurinn á lista UEFA yfir 50 efnilegustu knattspyrnumenn heims um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×