Karlalið United komst á topp ensku úrvalsdeildarinnar með 0-1 útisigri á Burnley í gær. Paul Pogba skoraði eina mark leiksins á 71. mínútu.
Þetta er í fyrsta sinn í 1221 daga sem United er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, eða síðan 2013. United er með þriggja stiga forskot á Liverpool sem er einmitt næsti andstæðingur liðsins. Erkifjendurnir eigast við á Old Trafford á sunnudaginn.
Kvennalið United er einnig á toppnum í ensku ofurdeildinni. United er með þriggja stiga forskot á meistara Chelsea sem eiga reyndar leik til góða.
United hefur unnið átta af fyrstu tíu leikjum sínum í ofurdeildinni og gert tvö jafntefli. Markatala liðsins er 27-9.
Uppgangur kvennaliðs United hefur verið hraður en ekki eru nema þrjú ár síðan það var sett á laggirnar. United vann ensku B-deildina tímabilið 2018-19 og endaði svo í 4. sæti ofurdeildarinnar á síðasta tímabili.
United fékk til sín sterka leikmenn í sumar, eins og bandarísku landsliðskonurnar Tobin Heath og Christen Press, og virðast ætla að gera alvöru atlögu að Englandsmeistaratitlinum.