Tveir leikir fóru fram samtímis klukkan 15 í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley heimsótti West Ham á Ólympíuleikvanginn í Lundúnum og var Jóhann Berg í byrjunarliði Burnley.
Michail Antonio kom heimamönnum yfir snemma leiks og leiddu þeir í leikhléi. Jóhanni var skipt af velli fyrir Dwight McNeil í leikhléi.
Ekkert mark var skorað í síðari hálfleik og lokatölur því 1-0 fyrir West Ham.
Sömu lokatölur litu dagsins ljós á Elland Road nema hvað að þar voru það gestirnir sem höfðu betur þar sem Brighton lagði Leeds United að velli.
Neal Maupay gerði eina mark leiksins eftir sautján mínútna leik.