Southampton eygði þess von að fylgja eftir fræknum sigri á Liverpool með því að leggja Leicester að velli í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og jafna þar með Leicester að stigum.
Ekki varð Dýrlingunum kápan úr klæðinu í þetta sinn því leiknum lauk með 2-0 sigri Leicester sem lék á heimavelli.
Fyrsta mark leiksins var skorað á 37.mínútu þegar James Maddison skoraði eftir sendingu frá Youri Tielemans.
Southampton henti öllum leikmönnum sínum fram á lokamínútunum en í stað þess að ná inn jöfnunarmarki fengu þeir á sig annað mark því Harvey Barnes komst aleinn í gegn á 94.mínútu og skoraði auðveldlega. Lokatölur 2-0.
Sigurinn lyftir Leicester upp í 2.sæti deildarinnar þar sem þeir eru nú stigi á eftir toppliði Manchester United, sem á þó leik til góða gegn Liverpool á morgun.