Á vef Variety kemur fram að framleiðslukostnaður myndarinnar sé í kringum sex milljónir evra, eða tæplega 940 milljónir króna. Þá kemur fram að myndin sé að mestu leyti á ensku.
„Gamalt flugvélarbrak kemur upp úr ísnum í Vatnajökli og af ókunnum ástæðum er bandaríski herinn á Miðnesheiði settur í viðbragðsstöðu. Þegar Kristín, lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu, tekur að grafast fyrir um málið er hún rekin á háskalegan flótta til að bjarga lífi sínu,“ segir í lýsingu Forlagsins á bókinni sem myndin byggir á.
Þetta er þó ekki fyrsta bók Arnaldar sem verður kvikmyndagerðarfólki innblástur, en árið 2006 kom út kvikmyndin Mýrin, sem byggði á samnefndri bók eftir Arnald, í leikstjórn Baltasars Kormáks.

