Fótbolti

Enginn mætti á blaðamannafund stjóra Porto eftir leikinn gegn Juventus

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sérgio Conceicao fagnar eftir leik Porto og Juventus í gær.
Sérgio Conceicao fagnar eftir leik Porto og Juventus í gær. getty/Jonathan Moscrop

Framlengja þurfti leik Juventus og Porto í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær. Blaðamannafundur knattspyrnustjóra Porto, Sérgio Conceicao, tók hins vegar enga stund. Bókstaflega.

Juventus vann leikinn í Tórínó í gær, 3-2, en Porto komst áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Portúgalska liðið vann fyrri leikinn á Drekavöllum, 2-1.

Afrek Porto er stórt og mikið en liðið var manni færri í leiknum í gær frá því í upphafi seinni hálfleiks þegar íranski framherjinn Mehdi Taremi fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að sparka boltanum í burtu eftir að dómarinn var búinn að flauta.

Staðan eftir venjulegan leiktíma var 2-1, Juventus í vil, og því þurfti að framlengja. Þegar fimm mínútur voru eftir af framlengingunni jafnaði Sérgio Oliveira með skoti beint úr aukaspyrnu. Adrien Rabiot kom yfir skömmu síðar en nær komust ítölsku meistararnir ekki.

Conceicao fagnaði vel og innilega með sínum mönnum eftir leikinn. Þegar hann var búinn að ná sér niður þurfti hann að mæta á blaðamannafund. Þangað mætti hins vegar enginn blaðamaður.

Þegar blaðafulltrúinn spurði hvort einhverjar spurningar biðu Conceicaos tók við nokkuð vandræðaleg þögn. Skömmu síðar var blaðamannafundinum lokið án þess að Conceicao þyrfti að svara nokkurri einustu spurningu eftir sennilega stærstu stundina á þjálfaraferli sínum.

Klippa: Stuttur blaðamannafundur stjóra Porto

Conceicao tók við Porto 2017 og hefur gert liðið að portúgölskum meisturum í tvígang. Á síðasta tímabili vann Porto bæði deild og bikar heima fyrir. 

Ljóst er að Porto endurtekur ekki leikinn í ár en liðið er úr leik í bikarkeppninni og er tíu stigum á eftir toppliði Sporting í portúgölsku úrvalsdeildinni.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×