Handbolti

Þorgerður Anna valdi bestu varnarmennina í Olís-deild kvenna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Topp fimm listi vikunnar í Seinni bylgjunnar var í boði Þorgerðar Önnu Atladóttur.
Topp fimm listi vikunnar í Seinni bylgjunnar var í boði Þorgerðar Önnu Atladóttur. stöð 2 sport

Þorgerður Anna Atladóttir valdi fimm bestu varnarmenn Olís-deild kvenna í handbolta í Seinni bylgjunni í gær.

Þrátt fyrir að hafa spilað þrjá leiki í vetur er Valskonan Anna Úrsúla Guðmundsdóttir í 5. sæti á lista Þorgerðar.

Í 4. sæti listans er Helena Rut Örvarsdóttir, leikmaður Stjörnunnar. „Hún er mjög flott í vörn og ekkert smá sterk. Það er erfitt að komast framhjá henni,“ sagði Þorgerður um Helenu.

Sunna Jónsdóttir hjá ÍBV er í 3. sæti listans. „Hún er búin að vera geggjuð í vörn og sókn og er alhliða leikmaður. Þegar maður horfir á ÍBV í vörn eru sóknarmenn sem forðast að fara á Sunnu því það er erfitt að komast þar í gegn.“

Klippa: Seinni bylgjan - Bestu varnarmenn Olís-deildar kvenna

Næsti leikmaður á lista kom nokkuð á óvart, ekki að hún hafi komist á listann heldur að hún skyldi ekki vera á toppi hans. Það er Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram.

„Það sem ég ætla að segja um Steinunni og kannski Önnu Úrsúlu líka er að þær eru ekki bara góðar í löglegum stöðvunum. Þær gera vörnina í sínum liðum betri. Þær vinna báðar vel með markverðinum og þetta eru varnarmenn sem er geggjað að hafa í sínu liði en ógeðslega pirrandi að vera á móti,“ sagði Þorgerður.

Í efsta sæti listans setti hún HK-inginn Elnu Ólöfu Guðjónsdóttur sem er með langflestar löglegar stöðvanir í Olís-deildinni.

„Hún er búin að vera frábær. Samkvæmt HB Statz er hún með átta lögleg stopp að meðaltali í leik. Hún er búin að springa út á þessu tímabili. Maður sá alveg eitthvað frá henni áður en hún er stöðug, fáránleg fljót og sterk á fótunum,“ sagði Þorgerður um Elnu. 


Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×