Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir í tilkynningu að í uppfærðum upplýsingum komi fram að umfang aðgerða stjórnvalda hér á landi nemi 9,2 prósent af vergri landsframleiðslu og sé þannig það hæsta á Norðurlöndunum.
Í fyrri tölum hafi hlutfallið numið 2,1 prósent og hafi íslensk stjórnvöld gert athugasemdir og bent á að „skekkja“ hafi verið sem hafi skýrst af því að aðeins hafi verið horft til nokkurra aðgerða; einkum hlutabóta, greiðslu launa á uppsagnarfresti og útgjalda innan heilbrigðiskerfisins. Þá hafi samantektin aðeins náð til ársins 2020 en ekki til ársins í ár og þeirra næstu, ólíkt því sem átti við um önnur lönd og ætlunin var með gagnagrunninum.
„Í uppfærðum gagnagrunni hefur verið tekið tillit til ýmissa veigamikilla stuðningsaðgerða sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til vegna heimsfaraldursins, sem ekki komu fram í fyrri samantekt. Þar má nefna fjárfestinga- og uppbyggingarátak, tekjufallsstyrki, viðspyrnustyrki og framlengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Þá voru aukin framlög til ýmissa félagslegra málefna ekki talin með og ekki aukinn stuðningur við rannsóknir og þróun.
Enn fremur var ekki tekið tillit til lækkunar ýmissa skatta og gjalda sem eru hluti af stuðningsaðgerðum stjórnvalda, þ.m.t. lækkun og niðurfelling tiltekinna gjalda í ferðaþjónustu. Jafnframt hefur ríkissjóður ábyrgst lán til fyrirtækja, sem gagnagrunnur AGS náði ekki til,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.