Íslenska karlalandsliðið í handbolta á eftir þrjá leiki í undankeppni EM, tvo gegn Ísrael og einn við Litáen. Kórónuveirufaraldurinn hefur sett strik í reikninginn í vetur og nú er skammur tími til stefnu til að klára leikina.
„Landsleikjavikan er frá 26. apríl til 2. maí og við eigum að spila þar þrjá leiki. Það er ekki enn komin niðurstaða í það hvernig þetta verður spilað. Eins og staðan er í dag eigum við að spila í Ísrael á þriðjudegi, Litáen á fimmtudegi og svo á Íslandi á sunnudegi,“ segir Róbert.
Tuttugu tíma ferðalag og enginn undirbúningur
„Þetta eru því á átta dögum; fjórir ferðadagar, þrír leikdagar og einn hvíldardagur. Það sér það hver maður að það er mjög erfitt að gera þetta í miðjum heimsfaraldri, að þurfa að ferðast á milli þessara landa. Við erum í samtali við handknattleikssamband Evrópu og vonandi kemur niðurstaða í það [í dag] sem hentar öllum. Þetta plan sem er í dag er verulega óhagstætt fyrir alla.
Eins og þetta lítur út núna er þetta 20 tíma ferðalag á miðvikudaginn, til að komast frá Ísrael til Litáens. Undirbúningurinn fyrir þann leik yrði því enginn á miðvikudeginum. Það er með ólíkindum að Evrópusambandið bjóði okkur upp á þessa umræðu en við skulum sjá hvernig þetta endar,“ segir Róbert.
Ísland er í góðum málum í 4. riðli eftir að hafa haft betur í innbyrðis leikjum sínum við Portúgal. Ef Ísland vinnur leikina þrjá sem eftir eru endar Ísland því í efsta sæti riðilsins, sem hjálpar liðinu að komast í efri styrkleikaflokk fyrir EM-dráttinn.
Portúgal er efst í riðlinum með 6 stig eftir 4 leiki, Ísland er með 4 stig eftir 3 leiki, Litáen 2 stig eftir 3 leiki og Ísrael án stiga eftir 2 leiki. Ísraelsmenn þurfa því að leika fjóra leiki dagana 26. apríl til 2. maí, þar af þrjá heimaleiki, ef allir leikir eiga að klárast.