Lífið

Biðst af­sökunar á ljótum skila­boða­sendingum til tánings

Sylvía Hall skrifar
Chrissy Teigen hefur notið mikilla vinsælda á Twitter undanfarin ár. Gamlar færslur voru þó dregnar fram í sviðsljósið nýlega eftir viðtal við Courtney Stodden.
Chrissy Teigen hefur notið mikilla vinsælda á Twitter undanfarin ár. Gamlar færslur voru þó dregnar fram í sviðsljósið nýlega eftir viðtal við Courtney Stodden. Getty

Samfélagsmiðlastjarnan og fyrirsætan Chrissy Teigen hefur beðist afsökunar á skilaboðum og færslum um fyrirsætuna Courtney Stodden fyrir áratug síðan. Stodden, sem notast við kynhlutlaus persónufornöfn, var sextán ára gamalt þegar Teigen birti færslurnar.

Á þeim tíma er Teigen sendi skilaboðin hafði Stodden vakið heimsathygli fyrir þær sakir að hán giftist leikaranum Doug Hutchison, sem var á þeim tíma fimmtugur og 24 árum eldri en Stodden. Þau skildu á síðasta ári eftir níu ára hjónaband.

Doug Hutchison og Courteny Stodden skildu í fyrra eftir níu ára hjónaband, en samband þeirra vakti mikla athygli á sínum tíma þar sem Stodden var sextán ára gamalt þegar þau gengu í hjónaband.Getty

Í skilaboðunum sem um ræðir hvatti Teigen Stodden til að taka eigið líf. Eftir að Stodden ræddi neteineltið sem hán varð fyrir í viðtali nýlega baðst Teigen afsökunar og sagðist skammast sín fyrir hegðun sína.

„Ég dauðskammast mín og er miður mín yfir hegðun minni, en það er ekkert samanborið við hvernig ég lét Courtney líða,“ sagði Teigen. „Ég var óöruggt, athyglissjúkt tröll.“

Teigen sagðist nú ætla vinna í því til frambúðar að verða betri manneskja. Hún vilji ekki bregðast fylgjendum sínum og það sé hræðileg tilfinning að vita til þess að þeir hafi orðið fyrir vonbrigðum með hana. 

Þá hafi hún reynt að setja sig í samband við Stodden til þess að biðjast afsökunar og vonar að hán taki afsökunarbeiðnina í sátt.

Stodden gerði það, en sagðist efast um einlægnina. „Ég tek afsökunarbeiðninni og fyrirgef henni, en sannleikurinn er sá að ég hef aldrei heyrt frá henni eða hennar fólki í einrúmi. Hún reyndar blokkaði mig á Twitter,“ sagði Stodden.

„Mig langar að trúa að þetta sé einlæg afsökunarbeiðni, en mér líður frekar eins og þetta sé opinber tilraun til þess að bjarga samstarfi hennar við Target og önnur fyrirtæki sem eru að átta sig á því að réttlætiskennd hennar er biluð plata.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×