Útilykt ilmurinn vakti mikla athygli tískuáhugafólks á hátíðinni og vildu margir prófa að finna lyktina af þessum nýja ilm.
Um er að ræða þverfaglegt hönnunarverkefni þar sem markmiðið var að búa til ilm fyrir 66°Norður og ákveðinn upplifunarheim í kringum ilminn, en hluti af verkefninu er einnig tónverk sem unnið er af Jónsa í Sigurrós, Sindra og Kjartani Holm. Verkið var spilað á sýningunni.

Jónsi í Sigurrós er einn af þeim sem stendur að fyrirtækinu Fischersund sem sérhæfir sig í upplifun og skynjun en hann og systur hans, Lilja, Ingibjörg og Sigurrós, stofnuðu Fischersund saman árið 2017.
Ilmvatnið er handgert hér á Ísland og unnið úr íslenskum lækningajurtum og jurtaolíum sem gerir þetta að hreinni ilmvöru sem er laus við öll óæskileg aukaefni. Eins og fyrr segir er innblástur sóttur í íslenska náttúru og íslenska útilykt en vindurinn, sjórinn, snjórinn, nýslegið gras og að vera úti lék stærstan þátt í innblæstrinum. Systkinin sömdu þennan texta í tengslum við verkefnið.

Vindur í fangið úr öllum áttum
Skafrenningur smýgur innundir úlpukraga
Snjóperlur á frosnum lopavettlingum
Berjablá tunga og höfuð hvílir í mjúku lyngi
Sláttuvél í fjarlægum garði
Óskreytt jólatré fýkur niður gangstétt í sjávarrokinu
Hélaðar rúður, veðurfréttir og miðstöðin í botni
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem Hjördís Jónsdóttir tók af gestum sýningarinnar á HönnunarMars.













