Það var mikið fjör í lokin í Víkinni þar sem þrjú mörk voru skoruð á síðustu tíu mínútum leiksins. HK náði líka að tryggja sér stig í lok leiks og halda því áfram að taka stig af KR-ingum.
Víkingum fengu á sig jöfnunarmark á móti Fylki og náðu því ekki að jafna við Valsmenn á toppnum. Jöfnunarmark Fylkismanna var glæsilegur skalli frá Nikulás Val Gunnarssyni.
Djair Terraii Carl Parfitt-Williams kom Fylki í 1-0 með skoti utan af kanti en þeir Nikolaj Andreas Hansen og Helgi Guðjónsson snéru leiknum við með tveimur mörkum á fimm mínútna kafla.
HK náði líka að jafna metin á móti KR á KR-velli eftir að Atli Sigurjónsson hafði komið KR-ingum yfir í fyrri hálfleiknum. Stefan Alexander Ljubicic jafnaði metin sex mínútum fyrir leikslok.
Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknis, skoraði bæði mörkin þegar nýliðarnir unnu 2-1 sigur á FH en Matthías Vilhjálmsson hafði komið FH yfir í 1-0.
Kvöldið áður unnu Valur, KA og Breiðablik útisigra og eru þau öll meðal fimm efstu liða deildarinnar. Valsmenn eru með tveggja stiga forskot á Víking og KA-menn svo einu stigi á eftir. Blikar eru búnir að ná FH að stigum með tveimur sigurleikjum í röð en FH-liðið hefur tapað tveimur leikjum í röð.
Alls voru skoruð átján mörk í sjöttu umferðinni og nú má sjá þau öll í myndbandinu hér fyrir neðan.