Bankinn birti í dag drög að uppgjöri sínu fyrir ársfjórðunginn. Þau benda til þess að hagnaður bankans hafi numið 5,4 milljörðum á mánuðunum þremur og að arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli nemi 11,6%. Í tilkynningu segir að það sé umfram fjárhagsleg markmið bankans.
Þetta er töluvert meiri hagnaður en á sama tímabili í fyrra, þegar hann nam 3,6 milljörðum og sem hlutfall af eigin fé var hann 7,7%.
Skýringin sem gefin er á þessum aukna hagnaði er að virðisrýrnun eigna bankans var metin jákvæð um 1,1 milljarð á ársfjórðungnum, þegar hún var neikvæð um hálfan milljarð á fyrsta ársfjórðungi. Hækkanir á innlendum hlutabréfamörkuðum hafa síðan haft sitt að segja.
Hluthafar í Íslandsbanka eru 24.000 og hann er að 35% hluta í einkaeigu. Hlutafjárútboðið í júní var það stærsta sem farið hefur fram hér á landi og virði bréfa í bankanum hefur aukist um rúm 32% frá því að útboðinu lauk.