Júlía Ruth Thasaphong skoraði eina mark leiksins þegar Grindavík tók á móti Augnablik. Grindvíkingar eru nú með 14 stig í sjötta sæti deildarinnar, en pakkinn frá fjórða sæti og niður í það áttunda er nokkuð þéttur, á meðan að Augnablik er enn á botni deildarinnar með átta stig.
KR tók á móti FH í algjörum toppslag. Liðin í fyrsta og öðru sæti fyrir leikinn og KR gat náð sér í sex stiga forskot á toppnum.
Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir kom FH-ingum yfir eftir tæplega hálftíma leik, beint úr hornspyrnu og staðan var 1-0 egar flautað var til hálfleiks.
Sandra Nabweteme tvöfaldaði forskot FH-inga á 59. mínútu eftir stoðsendingu frá Selmu Dögg Björgvinsdóttur.
Niðurstaðan því 2-0 sigur FH-inga, en sigurinn lyftir þeim á topp Lengjudeildarinnar með 29 stig. KR-ingar eru einnig með 29 stig, en FH er með betri markatölu og toppsætið er því þeirra.