Fótbolti

Kveðjum rignir yfir Guðbjörgu - „Einn besti markmaður sem Ísland hefur átt“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðbjörg í leik með íslenska landsliðinu.
Guðbjörg í leik með íslenska landsliðinu. Nordic Photos/Getty

Fyrrum landsliðskonan í fótbolta, Guðbjörg Gunnarsdóttir, tilkynnti í morgun að hún hefði lagt markmannshanskana á hilluna. Fyrrum félagar Guðbjargar í landsliðinu kepptust við að þakka henni fyrir sig í dag.

Guðbjörg hafði ætlað sér að leika með norska liðinu Arna-Björnar í vetur en aðstæður hjá félaginu buðu ekki upp á það. Hún sleit samningi þar nýlega og ákvað í dag að hætta knattspyrnuiðkun alfarið.

„Eftir góða umhugsun hef ég tekið þá ákvörðun að leggja hanskana á hilluna eftir langan og skemmtilegan feril. Þetta var alls ekki auðveld ákvörðun enda elska ég ennþá að spila fótbolta og mun sennilega alltaf gera það,“ er á meðal þess sem Guðbjörg sagði í færslu sinni á Twitter í morgun þar sem hún sagði frá því að hanskarnir færu á hilluna frægu.

Guðbjörg er 36 ára gömul og vann fjóra Íslandsmeistaratitla með Val áður en hún hélt út í atvinnumennsku 2008. Síðan hefur hún leikið í Svíþjóð, Noregi og Þýskalandi í 13 ár. Hún spilaði 64 A-landsleiki fyrir Ísland frá árinu 2004 og fór með íslenska landsliðinu á þrjú stórmót; EM 2009, 2013 og 2017.

Fjölmargar þeirra sem léku með Guðbjörgu í landsliðinu tóku á Twitter í dag til að þakka henni fyrir samstarfið og hennar framlag til íslenskrar knattspyrnu. Þar á meðal eru Sif Atladóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Hallbera G. Gísladóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og fyrrum landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson. Kveðjurnar má sjá að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×