Raul Jimenez talaði um það að honum liði nú eins og leikmanni á ný eftir að hafa spilað sinn fyrsta úrvalsdeildarleik síðan í nóvember þegar hann höfuðkúpubrotnaði í leik á móti Arsenal.
Raúl Jiménez: The doctors told me it was a miracle to still be there | interview by @Paul_Doyle https://t.co/89U2I8RmUt
— Guardian sport (@guardian_sport) August 17, 2021
Jimenez spilaði allar níutíu mínúturnar þegar Wolves tapaði 1-0 á útivelli á móti Leicester City í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Breska ríkisútvarpið ræddi við kappann um endurkomuna.
„Ég hélt alltaf að ég færi aftur að gera það sem ég elska þegar ég myndi ná mér. Ég velti því aldrei fyrir mér að leggja skóna á hilluna. Það var möguleiki en ég hafði alltaf trú á endurkomu,“ sagði Raul Jimenez í viðtalinu.
Jimenez má alveg skalla boltann á æfingum sem og auðvitað í leikjum. Félagið heldur þó utan um það hversu oft hann skallar boltann.
Doctors told Raul Jimenez he was lucky to be alive after his skull fracture.
— B/R Football (@brfootball) August 18, 2021
Now he's back playing football again pic.twitter.com/g87aeiLLeA
Jimenez man ekki eftir atvikinu en það síðasta sem hann man er að ganga frá fötunum sínum í búningsklefanum fyrir leikinn. Það næsta sem hann man er að vakna upp á sjúkrahúsinu. Þess vegna getur hann kannski horft aftur á atvikið frá því í nóvember í fyrra.
Í raun var hann mjög heppinn að ekki fór verr. „Læknarnir sögðu við mig að það væri kraftaverk að ég væri hér enn,“ sagði Jimenez í viðtali við Guardian en höfuðkúpan brotnaði og það blæddi aðeins inn á heilann.
„Blæðingin þrýsti á heilann og því varð ég að komast sem fyrst í aðgerð. Læknarnir gerðu vel,“ sagði Jimenez
Læknarnir vöruðu hann við því eftir aðgerðina að svo gæti farið að hann spilaði ekki fótbolta aftur.
„Læknarnir sögðu mér frá áhættunni. Af því að þeir eru læknar þá verða þeir að segja manni sannleikann og þú verður bara að sætta þig við hann. Höfuðkúpubrotið tók aðeins lengri tíma að græða en það er sannkallað kraftaverk að ég er farinn að spila fótbolta aftur,“ sagði Jimenez.