Sheeran hefur stutt félagið frá barnæsku en það hefur verið í betri stöðu en í dag. Liðið var í úrvalsdeild í upphafi aldarinnar, á meðan Hermann Hreiðarsson lék með liðinu, og vann Evróputitil undir stjórn Sir Bobby Robson í upphafi níunda áratugarins.
Síðusutu ár hafa hins vegar verið félaginu strembin og hefur liðið meira að segja átt í erfiðleikum með að finna almennilegan auglýsingasamning tengdan treyjum þess.

Sheeran steig þar inn í sumar og keypti auglýsingu framan á treyjur liðsins. Þar má sjá tónleikaferðalag hans auglýst. Auglýsingin virðist hafa komið félaginu á kortið þar sem félagið hefur selt 156 prósent fleiri treyjur í sumar heldur en í fyrra.
Treyjur eru nú uppseldar í vefsölu hjá félaginu og vinnur framleiðandinn Adidas hörðum höndum að því að framleiða fleiri treyjur.
Liðið hefur selt flestar treyjur af öllum liðum í C-deildinni og er það í 17. sæti yfir flestar seldar treyjur á meðal enskra félaga í sumar. Úrvalsdeildarlið á við Burnley, Watford, Brighton og Southampton auk granna Ipswich í Norwich City, eru öll fyrir neðan liðið á listanum.
Efst á lista er Chelsea og þar á eftir Liverpool. Arsenal er í þriðja sæti, Manchester City í því fjórða þar sem kaupin á Jack Grealish hafa haft sitt að segja, óvænt á undan Manchester United sem er í fimmta sæti.
United mun þó vafalaust fara á topp listans áður en langt er um liðið vegna kaupa félagsins á Cristiano Ronaldo. Treyjur félagsins í Jóa útherja hér á Íslandi seldust hratt upp í gær eftir að kynnt var um skiptin.