Á 35. mínútu var Xhaka rekinn af velli fyrir tveggja fóta tæklingu á Joao Cancelo, varnarmann City. Staðan var þá 2-0, Englandsmeisturunum í vil. Þeir bættu svo þremur mörkum við og unnu 5-0 sigur.
„Hann hefur nú fengið ellefu rauð spjöld á ferlinum. Þetta er óafsakanlegt,“ sagði Shearer í Match of the Day á BBC í gær.
„Skilaboðin sem hann sendi samherjum sínum voru: afsakið, þið sjáið bara um þetta, ég nenni þessu ekki í dag. Hvern var hann að reyna að heilla? Ég veit ekki.“
Shearer segir að Martin Atkinson, dómari leiksins, hafi ekki átt neinna annarra kosta völ en að reka Xhaka út af.
„Þú getur ekki tæklað svona. Við þekkjum allir reglurnar. Hann setur mótherjann í hættu. Þetta var rétt ákvörðun. Hann [Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal] hlýtur að vera brjálaður. Þú ert þegar í vandræðum og hefur ekki efni á að gera svona lagað.“
Arsenal er á botni ensku úrvalsdeildarinnar, án stiga og með markatöluna 0-9. Skytturnar hafa ekki byrjað tímabil verr síðan 1954-55.