Eitt af síðustu verkum stjórnar knattspyrnusambands Íslands, sem nú hefur stigið til hliðar, var að taka Kolbein út úr landsliðshópnum sem á næstu dögum mætir Rúmeníu, Norður-Makedóníu og Þýskalandi í undankeppni HM.
Stjórn KSÍ tók þá ákvörðun eftir að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir greindi frá því í viðtali í Ríkissjónvarpinu á föstudaginn að leikmaður karlalandsliðsins hefði brotið á henni á skemmtistað í Reykjavík í september 2017. Hún kærði leikmanninn sem á endanum baðst afsökunar og greiddi Þórhildi og annarri konu sem hann braut á miskabætur. Kolbeinn er sá leikmaður sem um ræðir.
Framtíð Kolbeins hjá Gautaborg hefur vegna málsins verið í óvissu síðustu daga. Í frétt Expressen segir hins vegar að nú sé ljóst að hann verði áfram með liðinu, eftir að hafa verið einn mikilvægasti leikmaður þess á tímabilinu.
Aðspurður hvort það stæði til að rifta samningi Kolbeins svaraði Farnerud: „Nei, að svo komnu máli stendur það ekki til.“
Expressen hefur, ekki frekar en íslenskir miðlar, náð tali af Kolbeini eða umboðsmanni hans. Það hefur Farnerud hins vegar gert:
„Við höfum rætt við Kolbein og munum halda áfram að ræða við hann. Við fengum alla söguna frá honum í gær og vitum hvernig málin standa. Við ræðum það innan okkar raða og með Kolbeini hvernig við höldum áfram,“ sagði Farnerud.
Kolbeinn hefur leikið 17 leiki með Gautaborg í sænsku úrvalsdeildinni í ár og skorað fjögur mörk. Þetta er þriðja tímabil hans í Svíþjóð en hann lék áður með AIK.
Samningur Kolbeins, sem er 31 árs gamall, við Gautaborg rennur út í lok árs þegar tímabilinu lýkur í Svíþjóð.