Aron og félagar í Álaborg töpuðu óvænt fyrir SønderjyskE, 29-28, í 2. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í gær. Aron skoraði fjögur mörk í leiknum. Sveinn Jóhannsson gerði tvö mörk fyrir SønderjyskE.
Þetta var í fyrsta sinn sem Aron tapar deildarleik síðan 13. apríl 2018, eða í þrjú ár, fjóra mánuði og 21 dag. Barcelona tapaði þá fyrir Granollers, 28-29. Frá því tapi og þar til í gærkvöldi lék Aron 87 deildarleiki með Barcelona og Álaborg, vann 86 og gerði eitt jafntefli.
Danski handboltaspekingurinn Rasmus Boysen benti á þetta á Twitter eftir leik Álaborgar og SønderjyskE í gær.
Danish league:
— Rasmus Boysen (@RasmusBoysen92) September 2, 2021
SønderjyskE 29-28 Aalborg Håndbold
After 87 undefeated matches (86 wins, 1 draw) in a row Aron Palmarsson loses his the first domestic league match since 13.04.2018 (Liga Asobal: Barca 28-29 BM Granollers).
: TV2 Sport#handball pic.twitter.com/giuPHiA3Sq
Barcelona hefur haft gríðarlega mikla yfirburði á Spáni undanfarin ár og varð meistari 2019, 2020 og 2021 án þess að tapa leik.
Aron lék með Barcelona í fjögur ár og á þeim tíma voru tapleikirnir sárafáir. Á Barcelona-árunum vann Aron nítján titla.
Aron gekk í raðir Álaborgar í sumar og miðað við mannskapinn þar á bæ munu líklega fleiri titlar bætast í safn Hafnfirðingsins.