Að sögn ráðgjafafyrirtækisins Analytica er efnahagsbati í gangi en þróun kortaveltu í verslun innanlands bendi til að hægja kunni að vera á batanum.
Vísitalan tekur gildið 102,7 í ágúst og á sú tala að gefa vísbendingu um framleiðslu í febrúar 2022. Leiðandi hagvísir Analytica tekur gildið 100 þegar búist er við að landsframleiðsla sé í takt við langtímaleitni.
Fjórir undirþættir hækka af sex
Hagvísirinn tekur mið af aflamagni, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréf, innflutningi og væntingavísitölu Gallup.
Í ágúst hækka fimm undirþættir frá fyrra ári en fjórir hækka milli júlí og ágúst. Það er innflutningur, ferðamannafjöldi, heimsvísitala hlutabréfa og aflamagn. Stærsta framlag til hækkunar er vegna fjölgunar ferðamanna og aukins vöruinnflutnings.

„Þrátt fyrir sterkar jákvæðar vísbendingar þá er ennþá óvissa tengd ferðaþjónustu og framgangi COVID-19 farsóttarinnar erlendis. Þá er óvissa um framvindu í öðrum þeim atvinnugreinum sem mest hafa vaxið síðastliðið misseri,“ segir í tilkynningu Analytica.
Líkt og fyrr segir mælist samdráttur í vexti debetkortaveltu milli mánaða. Er það sagt vera vísbending um að það kunni að styttast í vendipunkt leiðandi hagvísis Analytica.
Þetta gæti meðal annars tengst því að með auknum ferðalögum Íslendinga þá færist neysla frá innlendri verslun og til útlanda.
Analytica ehf. er óháð ráðgjafarfyrirtæki á sviði efnahags- og fjármála með áherslu á ráðgjöf um fjár- og áhættustýringu til fagfjárfesta. Framkvæmdastjóri og stofnandi fyrirtækisins er Yngvi Harðarson hagfræðingur.