Síðasta sumar var tilkynnt að leikkonan Kristen Stewart myndi fara með hlutverk Díönu prinsessu í kvikmynd um skilnað hennar við Karl Bretaprins. Þessi ákvörðun vakti blendin viðbrögð. Twilight leikkonan sagði frá því síðar að hún hefði sagt já við verkefninu án þess að hafa lesið handritið.
Stewart virðist þó hafa náð að þagga niður í gagnrýnisröddum og fær hún mikið lof fyrir það sem sést í sýnishorninu nýja. Gagnrýnendur sem hafa séð myndina gefa henni stórkostlega dóma. Ganga sumir svo langt að spá henni jafnvel Óskarsverðlaunum fyrir hlutverkið.
Jack Farthing fer með hlutverk Karls Bretaprins í Spencer en það er Steven Knight, höfundur Peaky Blinders, skrifaði handrit myndarinnar.
Myndin fjallar um jólaboð konungsfjölskyldunnar í Sandringham kastalanum í Norfolk í Englandi, boðið þar sem talið er að Díana hafi ákveðið að skilja við Karl. Myndin verður frumsýnd þann 5. nóvember næstkomandi í Bretlandi og verður líklega komin í kvikmyndahús hér á landi um miðjan nóvembermánuð.