Er ákærða gert að sök að hafa í október og desember árið 2014 dregið sér rúmlega 251 þúsund evrur af söluandvirði fasteignar í Lúxemborg. Var um að ræða hluta af óútgreiddum hlutum fimm sameigenda ákærða að fasteigninni.
Fram kemur í ákærunni að ákærði hafi haft umrædda upphæð í vörslu á bankareikningi sínum eftir að sameigendurnir veittu honum skriflegt umboð til að fara með ráðstöfun fjármunanna og útdeilingu söluandvirðis.
Fékk allt söluandvirðið
Í samræmi við undirritað söluuppgjör millifærði lögbókandaskrifstofa söluandvirði fasteignarinnar að frádregnum kostnaði til lögmannsstofu. Hún millifærði svo samkvæmt fyrirmælum ákærða eftirstöðvarnar, samtals 447.036 evrur, inn á bankareikning ákærða í Lúxemborg.
Samkvæmt söluuppgjörinu nam hlutur hans 41.910 evrum af þeirri fjárhæð sem rann inn á bankareikning hans.
„Ákærði greiddi ekkert af þessum fjármunum til brotaþola heldur dró sér af samanlögðum hlutum þeirra í eftirstöðvum söluandvirðis fasteignarinnar [251.568 evrur] með heimildarlausri ráðstöfun hennar í eigin þágu, nánar tiltekið með samtals fimm millifærslum sem ákærði lét starfsfólk bankans framkvæma,“ segir í ákæru héraðssaksóknara.
Innistæða kyrrsett í Lúxemborg
Að sögn héraðssaksóknara kyrrsettu yfirvöld í Lúxemborg innistæðu á bankareikningi ákærða í desember 2014 og var kyrrsetningin staðfest með dómi héraðsdómstóls í Lúxemborg í janúar 2016. Var ákærða þá gert að greiða brotaþolum 429.854 evrur.
Á grundvelli dómsins leystu brotaþolar í júlí 2016 til sín allar eftirstöðvar innstæðu á bankareikningi ákærða, 152.998 evrur, sem var að öllu leyti tilkomin vegna söluandvirðis fasteignarinnar.
Í kjölfarið hafi brotaþolar hafið innheimtutilraunir á Íslandi til að fá eftirstöðvar kröfu sinnar.
Líka ákærður fyrir seinni tilraun til fjárdrátts
Hinum ákærða er sömuleiðis gert að sök að hafa gert tilraun til fjárdráttar í janúar 2015 þegar hann reyndi að láta starfsfólk Banque de Luxembourg millifæra 65 þúsund evrur út af reikningi sínum inn á bankareikning skráðan undir öðru nafni.
Starfsmaður bankans hafnaði að framkvæma færsluna með vísan til kyrrsetninga yfirvalda í Lúxemborg. Til vara er hinn ákærði ákærður fyrir umboðssvik.