Elín Jóna varði 17% skota sem hún fékk á sig í 30-17 tapinu gegn sterku liði Svíþjóðar í fyrstu umferð undankeppninnar en átti svo stórleik í 23-21 sigrinum gegn Serbíu á heimavelli á sunnudaginn.
Gegn Serbum varði Elín Jóna 14 skot eða 40% þeirra skota sem hún fékk á sig. Þar af varði hún til að mynda bæði vítin sem Serbar fengu.
Bianca Bazaliu frá Rúmeníu var valin mikilvægasti leikmaður fyrstu tveggja umferðanna. Ásamt þeim Elínu Jónu eru í úrvalsliðinu þær Camilla Herrem frá Noregi, Meline Nocandy frá Frakklandi, Katrin Klujber frá Ungverjalandi, Amelie Berger frá Þýskalandi og Danick Snelder frá Hollandi.
No Neagu? Bianca Bazaliu takes over #ehfeuro2022
— EHF EURO (@EHFEURO) October 11, 2021
GK: Elin Jona Thorsteinsdottir @HSI_Iceland
LW: Camilla Herrem
LB: Bianca Bazaliu MVP
CB: Meline Nocandy @FRAHandball
RB: Katrin Klujber @MKSZhandball
RW: Amelie Berger @DHB_Teams
LP: Danick Snelder pic.twitter.com/tzjXL4vQ8M
Sigurinn gegn Serbum þýðir að Ísland verður með í baráttunni um að komast í lokakeppni EM 2022 en tvö lið komast upp úr hverjum undanriðli. Svíþjóð er með 4 stig, Ísland og Serbía 2 stig hvort, og lakasta lið riðilsins, Tyrkland, er án stiga.
Næstu leikir Íslands eru í mars þegar liðið mætir Tyrklandi á útivelli og á heimavelli, og undankeppninni lýkur svo dagana 20.-24. apríl með tveimur umferðum.