ÍBV er komið áfram í Evrópubikarkeppni kvenna eftir frábæran viðsnúning á móti liði PAOK frá Þessalóníku. Fyrri leik liðana í gær lauk með sigra Grikkjanna, 29-24 og því ljóst að Eyjakonur ættu mikið verk fyrir höndum í dag. Þeim fórst það verk heldur betur vel úr hendi.
ÍBV byrjaði ekkert sérstaklega vel en um miðbik fyrri hálfleiks tóku þær algerlega yfir leikinn og fóru með sex marka forskot inn í hálfleikinn, 17-11. Eyjakonur voru svo í bílstjórasætinu mestallan síðar hálfleikinn þó svo að forystan hafi nokkrum sinnum dottið niður fyrir fimm mörk. Þær reyndust svo sterkari á lokakaflanum og lönduðu sigri, 29-22 og eru komnar áfram.
Sunna Jónsdóttir var frábær í liði ÍBV og skoraði átta mörk í leiknum. Þá fylgdi Elísa Elíasdóttir eftir góðum leik í gær og skoraði sjö.