Handbolti

Alfreð Gísla jákvæður þrátt fyrir tap á móti verðandi mótherjum Íslands á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason að stýra þýska landsliðinu um helgina.
Alfreð Gíslason að stýra þýska landsliðinu um helgina. Getty/Martin Rose

Fréttaskrifari heimasíðu þýska handboltasambandsins lýsti Alfreð Gíslasyni sem úrillum manni eftir tapleik á móti Portúgal en sagði þjálfara þýska landsliðsins þó mun jákvæðari í viðtalinu við hann eftir leik.

Þýska landsliðið tapaði 32-30 á móti Portúgal í vináttulandsleik í Düsseldorf eftir að hafa unnið fyrri leikinn með tveimur mörkum, 30-28.

Portúgal er í riðli með Íslandi á EM í janúar og fyrsti leikur íslenska liðsins er einmitt á móti því portúgalska á öðru stórmótinu í röð.

Þýska landsliðið er í D-riðli með Austurríki, Hvíta-Rússlandi og Póllandi.

Alfreð gerði miklar breytingar á landsliðshópnum sínum frá því á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar og vildi því skoða fleiri leikmenn í þessu verkefni með það markmið að yngja upp í liðinu.

„Þetta var rosalega mikilvæg vika til að fá tækifæri til að vinna með þessum strákum. Við náðum okkur í mikla þekkingu. Nýju strákarnir komu mjög vel fyrir og munu setja pressu á aðra leikmenn,“ sagði Alfreð Gíslason í viðtali við heimasíðuna.

Alfreð notaði sjö nýliða í leikjunum og þeir fengu allir gott tækifæri til að sýna sig og sanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×