Fótbolti

Nokkuð bjartsýnn á Blikasigur í Úkraínu: „Öll tölfræði liðanna er mjög jöfn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Breiðabliks á æfingu á heimavelli Kharkiv í gær.
Leikmenn Breiðabliks á æfingu á heimavelli Kharkiv í gær. getty/Vyacheslav Madiyevskyy

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, á von á jöfnum leik gegn Kharkiv í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Hann telur helmingslíkur á sigri Blika.

Leikur Breiðabliks og Kharkiv fer fram í næststærstu borg Úkraínu klukkan 17:45 í kvöld. Bæði lið eru án stiga eftir fyrstu tvo leiki sína í Meistaradeildinni.

Ásmundur segir erfitt að bera saman styrkleikanna deildanna á Íslandi og í Úkraínu en telur að lið Breiðabliks og Kharkiv séu nokkuð jöfn.

„Miðað við það sem við höfum séð frá Kharkiv er þetta gott lið. Þær eru með góðar fyrirgjafir. Við þurfum að verjast vel og vera skipulagðar í þessum leik. Við vonumst eftir jöfnum leik og vonandi gerum við vel,“ sagði Ásmundur á blaðamannafundi í gær.

Ásmundur Arnarsson stýrir Breiðabliki í annað sinn í kvöld.getty/Vyacheslav Madiyevskyy

„Eins og við horfum á þetta teljum við möguleikana vera 50/50. Það er erfitt að bera deildirnar sem liðin spila í saman en þú berð saman leikina í riðlakeppninni er öll tölfræði mjög jöfn. Þetta ætti að vera jafn leikur, helmingslíkur á sigri, vonandi náum við góðum leik og góðum úrslitum.“

Að sögn Ásmundar eru allir leikmenn Breiðabliks heilir og klárir í leikinn. Sem kunnugt er lauk tímabilinu hér heima í september og því eru leikmenn Blika í misgóðri leikæfingu.

„Það er áskorun að halda liðinu í leikæfingu en margir leikmenn voru í landsliðinu í október. Svo höfum við reynt að spila æfingaleiki. Hin liðin á Íslandi eru ekki byrjuð að æfa fyrir næsta tímabili svo við höfum spilað gegn liðum sem eru með stráka til að fá alvöru leiki,“ sagði Ásmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×