„Hér er dæmi um vöru sem er hringrás í verki þar sem hér er verið að vinna með sjálfbærni að leiðarljósi,“ segir Sæunn hönnuður um verkefnið.
„Sölvóll samanstendur af hágæðaefni handgerðu á Íslandi og fáanlegt í takmörkuðu upplagi þar sem verið er að endurnýta efni frá sauðkindinni sem hefur þraukað í árþúsundir á Íslandi og þróað með sér sérstaka tegund af ull sem þolir vætu og kulda vel.“

Það má sannarlega segja að það séu órjúfanleg bönd á milli Íslendinga og sauðkindarinnar, meðal annars þar sem ullargæran var eini hlífðarfatnaður Íslendinga þar til nútímaefni litu dagsins ljós á 20. öldinni.

„Stór þáttur í framleiðslu 66° Norður er að fullnýta allt hráefni sem endurspeglar þetta verkefni sem felst í því að nýta gæruna sem fellur til við sauðfjárræktun á sem bestan hátt. Allar gærur sem notaðar eru, eru aukaafurð úr mannúðlegri rækt lausagöngufjár á fjölskyldubýlum og skinnin eru sútuð samkvæmt ströngustu evrópsku stöðlum um vistvæna sútun,“ segir Sæunn.

„Þetta er tímalaus og sígild lúxusvara með eiginleika sem jafnast á við háþróaðan og tæknilegan útivistarfatnað. Á sama tíma hefur flíkin sterka skírskotun til menningar og sögu þjóðarinnar. Til að fullnýta allt hráefnið var einnig framleidd mittistaska og kerrupoki.“

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá framleiðsluferlið.