Mjög skiptar skoðanir eru innan nefndarinnar hvað skuli gera varðandi Megas sem er á lista yfir þá sem þiggja heiðurslaun en eftir að viðtal birtist í Stundinni við konu sem sakar Megas um kynferðisofbeldi. Í ljósi þess þykir ýmsum, þar á meðal nefndarmönnum, það ótækt að Megas sé á heiðurslaunum listamanna.
Í Stundinni segir að Bergþóra Einarsdóttir hafi tilkynnt meint brot Megasar og Gunnars Arnar Jónssonar kenndan við hljómsveitina Súkkat, til lögreglu strax árið 2004, en gögnin fundust ekki aftur í málaskrá lögreglu. „Árið 2011 lagði hún fram formlega kæru en frekari rannsókn fór aldrei fram, þeir voru aldrei kallaðir fyrir og málið fellt niður þar sem það var talið fyrnt, enda skilgreint sem blygðunarsemisbrot. Niðurstaðan var kærð til ríkissaksóknara sem taldi málið heyra undir nauðgunarákvæðið en felldi það einnig niður á grundvelli einnar setningar.“
Allsherjar- og menntamálanefnd veltir þessum málum nú fyrir sér og á í standandi vandræðum með það enda er það afar flókið. En samkvæmt heimildum Vísis verður reynt að koma í veg fyrir að það komi fyrir þingið sjálft en sérstaklega þætti þingheimi það illt við að eiga ef ef beðið yrði um sundurliðun þannig að þingið þyrfti að greiða atkvæði um hvern og einn á listanum.
Leitað að tveimur til þremur listamönnum til að fylla hópinn
23 eru nú á heiðurslaunum en meðal þess sem nefndin lítur á sem verkefni sitt er að finna til tvo sem setja má á listann en heiðurslaun listamanna eru veitt allt að 25 listamönnum árlega. Þó uppi séu skiptar skoðanir á þessu fyrirbæri þá munu menn, ef þeir sjá fram á að fá ekki lögum breytt, berjast fyrir „sínum mönnum“ en heiðurslaunin og hverjir þau hlutu voru löngum undirorpin flokkspólitískum hrossakaupum.
Í lögum segir að þeir einir geti notið heiðurslauna sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa eða skarað fram úr við listsköpun sína eða ef störf þeirra að listum hafa skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþjóðavettvangi.
„Forseti Alþingis skipar nefnd þriggja manna sem allsherjar- og menntamálanefnd leitar umsagnar hjá um þá listamenn sem til greina koma að njóta launanna skv. lögum nr. 66/2012 um heiðurslaun listamanna.“
Nokkrir nefndarmanna vilja Megas út
Í nefndinni eiga sæti Bryndís Haraldsdóttir (formaður), Jóhann Friðrik Friðriksson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Eyjólfur Ármannsson, Jódís Skúladóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Logi Einarsson en áheyrnarfulltrúi er Sigmar Guðmundsson.
Eftir því sem Vísir kemst næst er afstaða nefndarmanna til þessa máls þverpólitísk. Nokkrir eru helst á því að víkja beri Megasi af lista og þar með svipta hann heiðurslaununum.
En meðal spurninga sem nefndarmenn spyrja sig er hvort myndast geti skaðabótaskylda við það að taka Megas af listanum?
Þá að teknu tilliti til þess að um æviskipan er að ræða, engin dæmi eru um að fólk hafi verið svipt heiðurslaunum, en ekkert segir um það í lögum að þeir sem þiggi heiðurslaun þurfi að vera vammlausir. Og ekki er um mál að ræða sem hefur verið afgreitt af hálfu dómskerfisins þannig að ákvörðunin hlyti að byggjast á ásökunum sem ekki hafa hlotið meðferð réttarkerfisins.
Betlað og bísast í bænum
DV tók fréttaviðtal við Megas af því tilefni og birti undir fyrirsögninni: „Það þýðir ekki að betla og bísast í bænum“. Þar segist Megas ekki hafa heyrt annað en fólk vilji óska honum til hamingju með það.
„Kannski fæ ég bréf á mánudaginn, en þangað til verð ég að lifa samkvæmt því að eiga ekki neitt,“ sagði Megas við það tilefni. Blaðamaður DV, sem kallar Megas meistara, og spyr hvort meta megi þetta sem svo að Megas fái nú „loksins“ viðurkenningu fyrir störf sín. „Það hefur alltaf virst eins og það séu einhverjir verndarmúrar þarna. Ég veit ekki hvort það sé hægt að kalla það viðurkenningu frá fólki þó að maður fái laun frá hinum svokölluðu fulltrúum þess.“
Heiðurslaun listamanna eru veitt listamanni að fullu til sjötíu ára aldurs og skulu vera þau sömu og starfslaun listamanna eru á hverjum tíma. Eftir sjötugt eru þau 80% af starfslaunum. Starfslaun listamanna í fyrra voru rúmlega 400 þúsund krónur á mánuði eða tæpar fimm milljónir króna yfir árið.
Þeir sem eru á heiðurslaunum listamanna
Þeir sem voru á lista yfir heiðurslistamenn þjóðarinnar voru eftirfarandi en Jón Sigurbjörnsson og Vilborg Dagbjartsdóttir féllu frá á árinu.
| 1. | Bubbi Morthens |
| 2. | Erró |
| 3. | Friðrik Þór Friðriksson |
| 4. | Guðbergur Bergsson |
| 5. | Guðrún Ásmundsdóttir |
| 6. | Guðrún Helgadóttir |
| 7. | Gunnar Þórðarson |
| 8. | Hannes Pétursson |
| 9. | Hreinn Friðfinnsson |
| 10. | Jón Ásgeirsson |
| 11. | Jón Nordal |
| 12. | Jón Sigurbjörnsson |
| 13. | Jónas Ingimundarson |
| 14. | Kristbjörg Kjeld |
| 15. | Kristín Jóhannesdóttir |
| 16. | Magnús Pálsson |
| 17. | Matthías Johannessen |
| 18. | Megas |
| 19. | Steina Vasulka |
| 20. | Vigdís Grímsdóttir |
| 21. | Vilborg Dagbjartsdóttir |
| 22. | Þorbjörg Höskuldsdóttir |
| 23. | Þorgerður Ingólfsdóttir |
| 24. | Þráinn Bertelsson |
| 25. | Þuríður Pálsdóttir |
